Næsta myndataka verður auglýst með fyrirvara.

Tilbúin Andlit

Mynduð Andlit

Íbúar Reykjanesbæjar

Fagurfræði Uppsöfnunar

Eitt af því sem listir og vísindi eiga sammerkt er eins konar söfnunarárátta, sem brýst út í samantekt rannsakenda á öllu því sem tilheyrir tilteknu umfjöllunar-eða rannsóknarsviði. Náttúrufræðingar stefna ótrauðir að því að hafa upp á og flokka til hlítar allar dýrategundir sem hrærast á (og undir) jarðskorpunni, stjarneðlisfræðingar sækjast eftir upplýsingum um allar stjörnur og stjörnuþokur alheimsins og erfðafræðingar eru ekki i rónni fyrr en þeir hafa haft upp á genamengi alls lífríkisins. Á vettvangi listanna vilja fræðimenn draga saman og hafa til hliðsjónar gjörvallt ævistarf listamanna; sérhvert pappirssnifsi frá hendi myndlistarmanna, allar tónsmíðar tónskálda, öll handrit rithöfunda.

Undirliggjandi þessari upplýsingasöfnun er sú fullvissa býsna margra að einungis „sagan öll“ tryggi endanlegan sannleika um það sem er til rannsóknar. En þeir eru til sem halda því fram að þennan sannleika sé ekki endilega að finna í endanlegu samsafni tegunda eða hluta, heldur nægi mönnum vel valið úrtak til úrvinnslu. Til að mynda hafa brautryðjendur í gerð og túlkun skoðanakannanna sérhæft sig í að draga stórar ályktanir af vel völdum úrtökum. En uppsöfnuð þekkingin er eftir sem áður af hinu góða, hvernig sem menn kjósa að vinna úr henni.

Í rauninni eru tilraunir til að hafa upp á „sögunni allri“ dæmdar til að mistakast, því engin rannsókn getur  nokkurn tímann verið endanleg eða tekið af öll tvímæli.

Samt sem áður hefur löngunin til að gera slíkar tilraunir og framkvæma slíkar rannsóknir verið listamönnum sem fræðimönnum meiri aflgjafi en flest annað. Hvergi hefur þeim mistekist betur – „failed better“, svo notað sé orðalag Samuels Beckett – en í viðleitninni til að ná utan um allt sem er.

Í sjónlistum hefur meira að segja orðið til eins konar „fagurfræði uppsöfnunar“, þar sem áhrifamáttur listaverka og um leið listræn gæði eru mæld eftir því hversu mikið listamaðurinn kemst yfir að skrásetja. Af praktískum ástæðum eru það helst listamenn með áhuga á ljósmyndum sem ástundað hafa uppsöfnunarmyndlist af þessu tagi. Hún er ein helsta forsenda konseptmyndlistarinnar, sjá t.d. verksmiðjuturnana sem Berndt og Hilla Becher ljósmynduðu um gjörvallt Þýskaland á sjöunda áratugnum. Uppsöfnunarmyndlistin kemur einnig við sögu popplistar, gott dæmi eru málverk Andys Warhol og ljósmyndir Eds Ruscha af hverju einasta húsi við Sunset Strip, aðalgötuna í Los Angeles, sem er öðrum þræði tilraun til skrásetningar á þreyttum „glamúr“ bandarísku kvikmyndaborgarinnar.

Fagurfræði uppsöfnunar á sér einn mikilhæfan talsmann á Íslandi. Á níunda áratugnum réði þýsk-svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth ungan íslenskan ljósmyndara til að taka myndir af öllum húsum í Reykjavík.

Fyrir Dieter var þetta ljósmyndasafn eitt heildstætt listaverk. Það er varðveitt í Nýlistasafninu, aðgengilegt áhugafólki um jafnt myndlist sem skipulagsmál. Eins konar viðauki við þetta húsasafn er svo bók Öldu Lóu Leifsdóttur, „Fólkið við Þórsgötu“, sem gefin var út 2012, en þar birtir hún ljósmyndir af öllum íbúum í húsunum við umrædda götu í Reykjavík, þ.á.m. eigin fjölskyldu.

Metnaður þeirra Björgvins Guðmundssonar ljósmyndara og félagsskaparins Ljósop í Reykjanesbæ  stendur til enn umfangsmeiri uppsöfnunar. Upprunaleg áform þeirra snerust um almenna hyllingu íbúa Reykjanesbæjar, gerð andlitsmynda af ákveðnum fjölda bæjarbúa á öllum aldri. Framkvæmdin hefur nú undið upp á sig. Sú sýning sem kynnt er hér á Ljósanótt er fyrsti kafli mikillar herferðar, hverrar endanlegt markmið er að taka ljósmyndir af öllum núlifandi Reyknesingum, heimamönnum jafnt sem burtfluttum íbúum bæjarins. Vissulega er hér ekki tjaldað til einnar nætur, en takist þeim Björgvin og félögum hans þetta ætlunarverk sitt, að öllu eða langmestu leyti, er hér lagður grunnur að mikilsverðu framlagi til uppsöfnunarmyndlistar, og ekki síður til áttahagabundinnar sagnfræði, mannfræði og félagsfræði.

Aðalsteinn Ingólfsson

Um Verkefnið

Hugmyndin af verkefninu kviknaði í byrjun árs 2015 þegar við í Ljósop ákváðum að gera lítið verkefni fyrir Safnahelgi í Reykjanesbæ. Í fyrstu var markið sett á 5-10 andlitsmyndir af flottum karakterum, og seint í janúar byrjuðum við að prufumynda og þróa stílinn, þeas. vinnsluna á myndunum. Á Safnahelgi í mars síðastliðinn sýndum við svo afraksturinn, um 20 myndir, og mynduðum auk þess gesti sem komu við á sýningunni sem haldin var í húsnæði félagsins í Reykjanesbæ.

Okkur var fljótlega ljóst að þetta væri verkefni sem gæti náð langt. Við ákvaðum uppúr Safnahelgi að taka þetta skrefinu lengra og reyna að fá til okkar í myndatöku mun stærri hóp af fólki, svona sneiðmynd af öllum íbúum Reykjanesbæjar. Eftir það stækkaði verkefnið óðum og innan skamms vorum við komin með yfir 500 andlit.

Þáttaka bæjarbúa tók aldeilis kipp eftir að það varð ljóst að Andlit Bæjarins yrði ljósanætursýningin í ár. Á síðasta opna húsi þar sem fólki bauðst að koma í myndatöku mynduðum við yfir 160 manns. Margir urðu þó frá að hverfa, en verkefninu verður haldið áfram í haust og vetur. Auk þess höfum við heimsótt bæði Nesvelli og Hæfingarstöðina og myndað starfsfólk og vistmenn þessara staða þar sem það hefur ekki haft kost á því að koma til okkar.

Ljósanætursýningin er svo fjármögnuð með styrkjum frá stofnunum og fyrirtækjum í Reykjanesbæ auk ágróða af sölu myndanna á heimasíðu verkefnisins. Við viljum sérstaklega þakka Uppbyggingarsjóði, Listasafni Reykjanesbæjar, Fríhöfninni og Merkingu ehf, sem sá um prentun á þeim 300 myndum sem eru til sýnis.

Um Ljósop

Ljósop, félag áhugaljósmyndara á Suðurnesjum var formlega stofnað árið 2006. Félagsmenn eru ca. 20 talsins, og hittast þeir vikulega í húsnæði félagsins í Vatnsnesi, gamla byggðarsafni Reykjanesbæjar. Félagið er með styrktarsamning við Menningarsvið Reykjanesbæjar og fær þaðan árlegan styrk
og skuldbindur sig í staðinn til að halda ljósmyndasýningu á Ljósanótt.

Félagsmenn eru margir hverjir lærðir, eða að læra ljósmyndun. Flestir eru með áralanga reynslu af ljósmyndun og reynum við að miðla henni okkar á milli með því að hittast og spjalla, fara í útiferðir og þess háttar. Auk árlegrar ljósanætursýningar gefur félagið út ljósmyndabók með verkum félagsmanna á ári hverju.

Félagið er opið öllum 18 ára og eldri sem hafa áhuga á ljósmyndun. Ársgjald félagsins er 10.000 kr. Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins og skráningarform er að finna á heimasíðunni www.ljosop.org

Ljósmyndarinn

Björgvin Guðmundsson er fæddur í Keflavík árið 1977. Hann er margmiðlunarhönnuður að mennt og hefur starfað sem slíkur síðustu 18 ár.

Áhugi Björgvins á ljósmyndun hófst fyrir alvöru þegar hann hóf nám í Stafrænni Margmiðlun við Tækniskólann í Álaborg, Danmörku árið 2000 þar sem ljósmyndun var hluti af grunnnámi hans. Í framhaldi af því kynntist Björgvin stafrænni ljósmyndun og eftirvinnslu ljósmynda í tölvu og varð hún strax stór hluti af vinnu hans.

Árið 2007 fluttist Björgvin aftur heim til Íslands og gekk til liðs við Ljósop, og tók hann við sem formaður félagins árið 2008. Eftir það hefur hann náð sér í meiri þekkingu í listrænum og tæknilegum hluta ljósmyndunar.

Andlit Bæjarins í fréttunum

„Vinir, vandamenn og allir hinir“

Hugmyndin er að sýna myndirnar á Ljósanótt 2015. Víkurfréttir tóku tali Björgvin Guðmundsson, einn ljósmyndaranna sem standa að verkefninu.

Lesa meira á vf.is

„300 andlit bæjarins í Listasal Duus“

Ljósanætursýning Listasafns Reykjanesbæjar í Duus Safnahúsi, Andlit bæjarins, er að þessu sinni unnin í samstarfi við Ljósop…

Lesa meira á vf.is

„Festa andlit Reykjanesbæjar á filmu“

Björgvin Guðmundsson fer fyrir verkefninu „Andlit bæjarins“, sem ljósmyndaklúbburinn Ljósop í Reykjanesbæ stendur fyrir um þessar mundir.

Lesa meira á Vísir.is

„Áhugaverð andlit bæjarins“

Gestir við opnun listsýninga í sýningarsölum Duus Safnahúss hrifust mjög af ljósmyndasýningunni Andlit bæjarins.

Lesa meira á vf.is

„Aðal sýning Ljósanætur 2015“

Sýning áhugaljósmyndarafélagsins Ljósops í Reykjanesbæ „Andlit bæjarins“ verður aðal sýningin á Ljósanótt og verður í sal Listasafns Reykjanesbæjar.

Lesa meira á vf.is

Pin It on Pinterest